Skonnortan Haukur á siglingu um Skjálfanda

Umhverfisvæn ævintýri með Norðursiglingu

Það er ólýsanleg upplifun að líða um hafflötinn við heimskautsbaug, um borð í fallegum íslenskum eikarbát, umkringdur hvölum og ægifagurri náttúru. Norðursigling er fjölskyldufyrirtæki með heimahöfn á Húsavík og hefur boðið upp á hvalaskoðun og ævintýrasiglingar allt frá árinu 1995. Fyrirtækið er margverðlaunað fyrir frumkvöðlastarf í umhverfisvænni ferðaþjónustu og hefur vakið heimsathygli fyrir nýsköpun og varðveislu á norrænum menningararfi.

Velkomin til Húsavíkur: Höfuðborg hvalaskoðunar í Evrópu

Húsavík við Skjálfandaflóa er merkilegur og áhugaverður áfangastaður. Allt frá landnámi hefur samspil íbúa við hafið verið lífæð samfélagsins. Varðveisla og uppbygging hafnarsvæðisins ber þess enn merki að sjósókn og strandmenning leiki þar lykilhlutverk. Norðursigling var í fararbroddi íslenskra fyrirtækja og hóf fyrst þeirra að bjóða upp á skipulagðar ferðir í hvalaskoðun á Skjálfandaflóa árið 1995. Strax frá upphafi var ljóst að þessi náttúruupplifun var einstök og lagði grunninn að orðspori Húsavíkur sem höfuðborgar hvalaskoðunar í Evrópu. Á Húsavík er auk þess hið glæsilega Hvalasafn þar sem gestir geta lært allt um hvali, sögu og menningu tengda hvölum á Íslandi. Þar er hægt að sjá beinagrindur af fjölmörgum hvölum meðal annars af hinni mikilfenglegu steypireyð. Á Húsavík er einnig starfrækt rannsóknasetur á vegum Háskóla Íslands sem sinnir mikilvægu starfi við að kortleggja og kynnast þessum stórkostlegu dýrum enn betur.

Siglt frá Húsavíkurhöfn © Rafnar Orri Gunnarsson

Siglt frá Húsavíkurhöfn © Rafnar Orri Gunnarsson

Hnúfubakar og skonnortan Haukur

Hnúfubakar og skonnortan Haukur

Einstakar hvalaskoðunarferðir við allra hæfi

Norðursigling býður upp á fjölbreyttar ferðir í hvalaskoðun frá Húsavík. Vinsælasta ferðin er án vafa þriggja tíma hvalaskoðun um borð í hefðbundnum íslenskum eikarbátum. Hvala- og fuglaskoðunarferðir þar sem siglt er í kringum Lundey njóta einnig vaxandi vinsælda, ekki síst meðal fjölskyldna. Hvalaskoðun á seglskútum Norðursiglingar er síðan einstök upplifun þar sem farþegar læra um sögu skútanna og taka þátt í að setja upp segl. Síðast en ekki síst þá er Norðursigling eina fyrirtæki landsins sem býður upp á hvalaskoðun á rafmagnsbát sem gengur eingöngu fyrir grænu (íslensku) rafmagni og líður hljóðlaust um meðal hvalanna. Í öllum ferðum fá farþegar hlýjan öryggisgalla og einnig er boðið upp á heitt kakó og kanilsnúða á siglingunni heim.

Stórhveli og steypireyðar

Það er engin tilviljun að hvalaskoðun á Skjálfandaflóa sé vinsæl afþreying. Fjölmargar tegundir hvala leggja þangað leið sína og dvelja í kjöraðstæðum (fyrir fæðuöflun). Í ferðunum er algengast að sjá hinn skemmtilega hnúfubak en einnig sjást þar all oft hrefnur, hnýðingar og hnísur. Lang- og sandreyðar er stundum að finna í flóanum og andarnefjur og háhyrninga einnig. Skjálfandaflói er auk þess einn örfárra staða í heiminum sem vitað er til að stærsta dýr jarðar, steypireyðurin, hafi reglulega viðkomu, vægast sagt tilkomumikil sjón. Fuglalíf er einnig fjörugt á flóanum þar sem ýmsir sjófuglar leika listir sínar og það er ekki síst blessaður lundinn sem vekur hvað mesta athygli gesta. Yfir sumartímann er nánast öruggt að sjá hvali í ferðum Norðursiglingar.

Ástríðufullur mannauður og rótgróin saga

Hjá Norðursiglingu starfar samstilltur hópur fólks sem deilir mikilli ástríðu fyrir siglingum og ber mikla virðingu fyrir náttúru og dýrum. Norðlenskir skipstjórar með áratuga reynslu af sjósókn á svæðinu mynda skemmtilega blöndu með fjölþjóðlegum leiðsögumönnum. Innan fyrirtækisins hefur myndast gríðarleg þekking á umhverfi og lífríki flóans auk þess sem endurgerð og viðhald hins glæsilega flota fer að miklu leyti fram í Húsavíkurslipp, sem rekinn er af Norðursiglingu. Markmið Norðursiglingar hefur frá upphafi verið að efla sjálfbæra ferðaþjónustu og hefur fyrirtækið lagt metnað sinn í að endurnýja og viðhalda gömlum eikarskipum.

Opal á siglingu við strendur Grænlands

Opal á siglingu við strendur Grænlands

Skútur Norðursiglingar undir norðurljósum í Scoresbysundi © Örvar Atli Þorgeirsson

Skútur Norðursiglingar undir norðurljósum í Scoresbysundi © Örvar Atli Þorgeirsson

Rafmagnsskonnortan Ópal, sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum

Árið 2015 var einstakt rafmagnskerfi seglskipsins Opal vígt á Húsavík. Í framhaldi varð Norðursigling fyrst á heimsvísu að bjóða upp á kolefnislausar hvalaskoðunarferðir með því að nota eingöngu rafmagn og vind til framdriftar í ferðunum. Ári síðar bættist svo annar rafmagnsbátur fyrirtækisins í flotann og hlaut hið mjög svo viðeigandi nafn Andvari.

Ævintýraferðir á norðlægari slóðir

Norðursigling býður upp á algjörlega einstakar ævintýrasiglingar á skútum sínum um norðlægar slóðir. Vikulangar siglingar um stærsta fjarðakerfi jarðar, Scoresbysund á Austur-Grænlandi hafa fest sig í sessi en fyrirtækið hefur boðið upp á þær síðan 2011. Mikil eftirspurn er eftir ferðunum enda ótrúlegt tækifæri að upplifa heila viku um borð í seglskútu í fjölbreyttri náttúru fjarðarins, þar sem hver dagur er einstakur. Fyrirtækið hefur einnig boðið upp á skíðaferðir á Íslandi og í Norður-Noregi auk þess sem skúturnar hafa farið í sérferðir til Jan Mayen, Svalbarða og Grænlands.

Önnur starfsemi

Norðursigling hefur frá árinu 2015 boðið upp á hvalaskoðun frá Hjalteyri í Eyjafirði. Þar hefur fyrsti bátur fyrirtækisins, Knörrinn, haft sumardvöl og siglt með gesti frá þessu einstaka og sögulega sjávarþorpi.

Norðursigling á einnig veitingastaðinn Gamla Bauk á Húsavík sem byggður er úr rekavið og er fallega skreyttur margvíslegum munum og safngripum úr sjósókn og útgerð á svæðinu. Dásamlegur veitingastaður með frábært útsýni yfir höfnina.

Norðursigling tók einnig þátt í uppbyggingu hinna glæsilegu Sjóbaða á Húsavík sem opnuðu árið 2018 og hafa sannarlega slegið í gegn með óviðjafnanlegt útsýni yfir Skjálfandaflóa.